Hengdu þig! (eða borgaðu Icesave)

Posted on mars 5, 2011

1


Hengdu þig! (eða borgaðu Icesave)

eftir Kristján Guðjónsson

“Giftu þig, þú munt iðrast þess; giftu þig ekki, þú munt líka iðrast þess; giftu þig eða giftu þig ekki, þú munt iðrast hvorstveggja; annaðhvort giftir þú þig eða þú giftir þig ekki, þú munt iðrast hvorstveggja. Hlæðu að heimsku veraldar, þú munt iðrast þess; gráttu yfir henni, þú munt líka iðrast þess; hlæðu að heimsku veraldar eða gráttu yfir henni, þú munt iðrast hvorstveggja, annaðhvort hlærðu að heimsku veraldar eða þú grætur yfir henni, þú iðrast hvorstveggja. Treystu stúlku, þú munt iðrast þess; treystu henni ekki, þú munt líka iðrast þess; treystu stúlku eða treystu henni ekki, þú munt iðrast hvorstveggja; annaðhvort treystir þú stúlku eða treystir henni ekki, þú iðrast hvorstveggja. Hengdu þig, þú munt iðrast þess; hengdu þig ekki, þú munt líka iðrast þess; hengdu þig eða hengdu þig ekki, þú munt iðrast hvorstveggja; annaðhvort hengir þú þig eða þú hengir þig ekki, þú iðrast hvorstveggja. Þetta, herrar mínir, er kjarninn í allri lífsvizku.” (1)

Ég ætla ekki að kjósa um icesave, alveg sama hvar ég set X á kjörseðilinn, ég mun iðrast þess.

Í afstöðuleysi felst venjulega uppgjöf; uppgjöf fyrir ríkjandi ástandi, sem leiðir svo til aðgerðarleysis, og aðgerðarleysi borgaranna er banvænt fyrir samfélagið. Þess vegna hata ég afstöðuleysi.

En ég hata líka icesave, eða öllu heldur: ég hata það samfélag sem birtist í þeim þjóðarspegli sem icesave deilan er. Ég hata myndina sem icespegillinn endurvarpar, skrípamynd af því sem við köllum umræðuhefð og lýðræði. Loftið hérna inni er að kæfa mig. Opnið gluggana, ég þarf loft. Opnið hurðina, ég þarf að komast út, út, út.

Til lesandans

Nú telur þú, lesandi góður, mig líklega genginn af göflunum. Af hverju er hann að tala um icesave? Er Samræði að verða að moggabloggi? Ég lái þér það ekki.  En bíddu aðeins, leyfðu mér að útskýra.
Til að afstöðuleysi mitt leiði til einhvers meira en þöguls samþykkis við ríkjandi ástand verð ég að segja ykkur ástæður þess. Til að ég geti réttlætt afstöðuleysi mitt fyrir sjálfum mér verður að felast í því aðgerð.

Réttsemi og skynlæti

Í deilunni berjast tveir (af því er virðist) andstæðir pólar, sem við gætum á skopstæltan hátt kallað skynsemispólinn og réttlætispólinn.

Sá fyrri vill borga skuldina, af því að ef við gerum það ekki munum við aldrei fá lánaða pumpu til að blása lofti í hjól atvinnulífsins og napur vindur mun blása um óbyggða Hörpuna til eilífðarnóns. Enginn mun leiða okkur á göngum alþjóðlegra stofnana og  ruslflokkar og þriðjaheimsástönd bíða handan við hvert horn. Þá er nú betra að semja við bullurnar og fá að leika með áfram, segir hinn skynsami, það eru okkar hagsmunir.

Réttlætispólinn vill hins vegar ekki borga krónu heldur láta kennarann dæma um hvort brotið hafi verið á okkur eða ekki. Það sem má, er rétt að gera, og það sem lögin segja er réttlátt. Því eigum við ekki að viðurkenna á okkur nein mistök fyrir en dómarinn kveður upp úrskurð. Við ætlum að fá eins mikið og við mögulega getum, það er jú réttlætið.

Semsagt, ef við hættum að skreyta hugmyndir okkar í grímubúninga, þá væri betra að kalla afstöðurnar tvær aumingja-pólinn annars vegar og dekurbarns-pólinn hinsvegar (og mun ég gera það hér eftir).

En hvað með börnin okkar?

Þýski heimspekingurinn Immanuel Kant byggði siðfræði sína á einu algildu siðferðislögmáli: Gerðu aðeins það sem þú myndir vilja að yrði að almennri reglu í samfélaginu.

Það hljómar kannski einfeldningslega, en slíkur hugsunarháttur getur verið einstaklega heilbrigður

En heilbrigði er fólki ekki efst í huga þegar talað er um komandi kynslóðir: efnahagslegir hagsmunir eru alltaf mikilvægari en andlegt heilbrigði. Ætlum við að setja börnin okkar í skuldafangelsi? spyrja báðir hópar með tárin í augunum. ,,Já” segi ég. Að fara inn í lífið klyfjaður skuldum er ömurlegt, en heilbrigður einstaklingur mun komast yfir það. Að lifa í spilltu og siðblindu samfélagi sem spillir manni sjálfum, er ömurlegra.

Ef við prófum að gerast svolítið Kant-ísk í uppeldinu þá væri rétt að spyrja sig, hvernig samfélagi viljum við að börnin okkar alist upp í?

  1. Samfélagi sem gerir einstaklingum kleift að hirða gróða og skella skuldum á alla hina?
  2. Samfélagi sem fer ekki eftir lögum, sem það var búið að samþykkja?
  3. Samfélagi sem streytist ekki gegn kúgun til að halda kúgaranum góðum?
  4. Samfélagi sem telur að allt það sem sé ekki bannað sé rétt að gera?
  5. Samfélagi sem getur ekki rætt sín sameiginlegu mál öðruvísi en með öskurkeppni og eiginhagsmunaprútti.

Ég er frekar til í að læsa börnin mín í skuldafangelsi – með þá vitneskju að þau muni standa saman og vera góð hvert við annað – heldur en að hafa þau hlaupandi um í frjálsu samfélagi fullu siðblindu og kjaftæði (í sumum tilvikum getur kjallarinn bjargað börnunum frá Fritzl frænda).

Ef aumingjapóllinn væri eitthvað annað en meðvirkni og undirlægjuháttur, dulbúinn sem rödd skynseminnar, væri ég alveg til í að samþykkja málflutning aumingjanna.

Ef ég hefði vott af trú á því að dekurbörnin væru að krefjast réttlætis réttlætis vegna, myndi ég líklega styðja þeirra pól: ef þau krefðust réttlætis vegna þess að þau vildu breyta íslensku samfélagi í heiðarlegt og sjálfstætt, réttlátt og þroskað samfélag, ef þeir væru í stríði gegn heimsvaldastefnu og nýlendukúgun. En svo er ekki. Dekurbörnin vilja bara réttlæti fyrir sig, ekki neinn annan. Réttlæti er eiginhagsmunamál: gott svo lengi sem það hagnast okkur.

Forsendur og ákvarðanir

Hæstaréttarlögmaður segir í fréttunum að við myndum pottþétt vinna málið fyrir Evrópudómstólnum. Eitthvað rosa-virt hagfræðitímarit segir að við verðum að samþykkja samninginn til að losa okkur við holdveikisstimpilinn.

Og það er nefnilega málið. Ég er alveg handviss um að gefnum forsendum hvors hópsins fyrir sig hafa þeir báðir rétt fyrir sér; það er óréttlátt að borga og það er skynsamlegt að borga.

En þessar forsendur eru ekki siðferðilegar á nokkurn hátt. Rétt ákvörðun byggð á rangri forsendu er samkvæmt mínum bókum alltaf verri heldur en röng ákvörðun, byggð á réttum forsendum.

Ég er hvorki hagfræðingur né lögmaður og get á engan hátt metið hagsmuni né lögmæti hvorrar  ákvörðunar fyrir sig. Ég verð því að ákveða út frá þeim sem heyrast í þjóðmálaumræðunni, og þær forsendur eru vondar. Ef ég myndi kjósa, myndi ég taka afstöðu með málstað byggðum á vondum forsendum. Forsendum sem mín Kant-íska útópía myndi ekki samþykkja.

Það að taka afstöðu felur í sér samþykki á ríkjandi hugsunarhætti, í afstöðunni felst því aðgerðarleysi. Og eins og áður sagði, þá haaaata ég aðgerðarleysi.

Icesave er ekki sjúkdómur, heldur einkenni miklu djúpstæðari og alvarlegri veilu.

Borgaðu icesave, þú munt iðrast þess; borgaðu ekki icesave, þú munt líka iðrast þess, borgaðu icesave eða borgaðu ekki, þú munt iðrast hvorstveggja; annaðhvort borgar þú eða borgar ekki, þú iðrast hvorstveggja. En í guðanna bænum reyndu allavega að ala börnin þín almennilega upp.

(1) Søren Kierkegaard – Annaðhvort-Eða í íslenskri þýðingu Þorsteins Gylfasonar http://heimspeki.hi.is/?p=2422