Speglasalur Sjálfsins

Posted on mars 5, 2011

0


Speglasalur Sjálfsins

eftir Kristján Guðjónsson

Það eru allir að tala um Facebook. Flestir bölva síðunni fyrir að vera tímaþjófur, persónuleikahermir, slúðurlúður og erkióvinur náinna persónulegra samskipta. Þegar fram líða stundir held ég það sem skipti hins vegar mestu máli sé hvernig fyrirbærið breytir skynjun okkar á heiminum og okkur sjálfum.

Ég, Mig og Mín

Einn félagi minn vill meina að á Facebook séum við að þróa með okkur þriðja sjálfið (eða ef við aðhyllumst ekki neinskonar tvíhyggju; þriðju hliðina á sjálfsmynd okkar).

Fyrsta sjónarhornið getum við kallað ,,innra-sjálfið“, þetta er það sem maður á við með orðinu ,,ég.“ Í almennu tali virðast flestir vilja meina að  þetta sé hið raunverulega sjálf, einhver óbreytanlegur kjarni hverrar manneskju. Þó að ég sé alveg ofboðslega ósammála þeirri kenningu  ætti að vera í lagi að gera ráð fyrir að slíkt sjálf sé til (1). Þá er ,,Ég-ið” eiginlega eins og lítill kall sem situr inni í heilanum á okkur og stjórnar orðum og athöfnum líkamans.

Annað sjónarhornið getum við kallað ,,ytra-sjálfið,“ það hvernig aðrir sjá mig. Það er persónan sem aðrir kynnast, útlit, framkoma, skapgerð o.s.frv, allt það sem ég gef frá mér, ó- eða meðvitað.

Þriðja sjónarhornið er þá ,,Facebook-sjálfið,“ mín facebook-persóna. Sú mynd sem innra-sjálfið tekur meðvitaða ákvörðun um að miðla í gegnum mál og myndir á netinu.

Ég hef haldið því fram að Facebook-sjálfið sé aðeins hluti af ytra-sjálfinu, þ.e. því hvernig við viljum líta út í augum annarra. Þegar fólk bendir á þann hégómleik sem felst í hegðun fólks á Facebook, bendi ég á sömu eiginleika í klæðaburði viðkomandi, á brosinu sem hann setur upp þegar myndavélar eru mundaðar, líkamsstöðu í samskiptum, orðanotkun og svo framvegis og svo framvegis.

En engu að síður get ég ekki komist yfir þá hugsun að á þessum tveimur birtingarmyndum sjálfsins sé einhver grundvallarmunur. Eftir nokkra íhugun hef ég ákveðið að munurinn hljóti að felast í mismunandi tímalögmálum; að internetið fylgi öðrum tímalögmálum en raunheimurinn og auki þannig meðvitund okkar um eigin athafnir; geri okkur sjálfs-meðvitaðri.

Athöfn í rauntíma

Í hlutheiminum þurfum við að aðhafast í (því sem við gætum kallað) rauntíma. Þegar þú ert að drífa þig í vinnuna klæðir þú þig í fötin sem liggja á stólnum, ef einhver spyr þig spurningar þarft þú að bregðast við á því augnabliki. Tíminn sem þú færð til að taka ákvarðanir, býður upp á afar takmarkaða umhugsun. Þú þarft að ákveða hversu miklu af hinu innra-sjálfi þú ætlar að hleypa út, og hversu mikinn hluta þú ætlar að fela með persónu ytra-sjálfsins. Venjulega hefur maður aðeins brot úr sekúndu til að taka slíka ákvörðun, án þess að hugsa um það á hlutbundinn eða meðvitaðan hátt. Það er því ekki skrýtið að stundum mistakist yfirhalmningin, við upplifum vandræðalegar þagnir þegar við svörum ekki ,,rétt“ eða mismælum okkur á Freud-ískan hátt.

Það sem skiptir hins vegar mestu í kynnum okkar af rauntímanum er að við getum ekki yfirvegað orðin eða gjörðina til fullnustu fyrr en hún hefur verið framkvæmd. Maður verður ekki meðvitaður um eigin ósjálfráðu athafnir fyrr en eftir á. Þegar eitthvað heimskulegt kemur út úr manni eða maður hagar sér undarlega íhugar maður atvikið fyrst eftir að það hefur átt sér stað. Maður veltir sér upp úr því fram og til baka, en getur aldrei upplifað það aftur og getur aldrei séð hvernig maður leit raunverulega út. Maður getur á engan hátt rýnt í aðstæðurnar nema út frá mjög þröngu sjónarhorni (manns eigin takmörkuðu sýn sem er rifjuð upp af brenglandi minni og túlkuð af eiginhagsmunum).

Tímalögmálum raunheimsins og afleiðingum þeirra höfum við lært að hlýða, og þau orðin okkur náttúruleg.

Hinn stafræmi tími

Á internetinu höfum við, ólíkt raunheiminum, rýmri tíma til að aðhafast, og raunar frelsi um hvort við aðhöfumst yfirleitt. Hinn stafræni tími setur okkar engin föst mörk, og við höfum endalausan frest til að hugsa um hverja einustu gjörð. Ef við finnum okkur knúin til að gera eitthvað á netinu erum við í rauninni aðeins bundin af ytri aðstæðum hlutheimsins – rauntímanum: þú átt bara 10 mínútur eftir á netkaffihúsinu, eða eitthvað slíkt.

Fjarvera tímamarka gefur okkur kost á að skoða athöfnina út frá öllum (eða a.m.k. fleiri) mögulegum sjónarhornum áður en við aðhöfumust. Við verðum meðvituð um okkur sjálf í stærra samhengi hlutanna.

Franski fyrirbærafræðingurinn Jean-Paul Sartre talaði um hvernig maður upplifir sjálf-meðvitundina og tók dæmi um gluggagægji sem liggur djúpt sokkinn við iðju sína fyrir framan skráargat. Slíkur maður er einungis meðvitaður um það sem er að gerast fyrir innan skráargatið, hann sjálfur er ekki til í upplifuninni. Maðurinn vaknar hins vegar til meðvitundar um sjálfan sig þegar hann heyrir þrusk að baki sér. Hvort sem að þruskið er af mannavöldum eða ekki, virkar það sem staðgengill fyrir augnaráð. Honum finnst sem að augnaráð hvíli á sér og hann setur sig ósjálfrátt í spor hins hugsanlega áhorfanda og sér sjálfan sig frá þeim sjónarhóli. Honum er kippt inn í eigin líkama; gerir sér grein fyrir eigin líkamsstöðu, aðstæðunum, mögulegum undankomuleiðum o.s.frv.

Þegar við aðhöfumst á netinu er okkur stöðugt kastað inn í eigið sjálf. Við spyrjum okkur í sífellu: hvernig lítur þetta út? Hvað mun fólk halda? Er þetta töff? Er ég að gefa rétta mynd af mér? Og endalaust framvegis.

Það er ekki nóg með að þú sért að reyna að tjá þitt innra-sjálf á netinu, heldur verður einnig sú athöfn –að reyna að túlka sitt innra-sjálf– að sjálfsmeðvitaðri athöfn. Það að hundsa kröfunu um að sýna sitt innra-sjálf á netinu verður einnig að sjálfmeðvitaðri athöfn. Það að aðhafast á netinu er að festast í speglasal sjálfsins, allstaðar heyrist þrusk, við erum aldrei óhult frá vökulum augum panoptíkonsins

Engin athöfn er ósjálfráð, allt er sjálfsmeðvitað.

Sjálfs-meðvitund

Í tali um sjálfsmeðvitundina einbeitum við okkur oftast að hinum varasömu hliðum, eða afleiðingum, hennar.

Sjálfsmeðvitund leiðir oft til hégóma, eða mögulega byggist sjálfsmeðvitundin á einhverskonar hégóma. Sá sem er sjálfsmeðvitaður einbeitir sér um of, af því hvernig hann kemur öðrum fyrir sjónir og fyllist af hégóma.

Tengt hegómanum, en mögulega alvarlegri ásökun á sjálfsmeðvitundina, er að hún virðist gera einlægni erfiðari eða jafnvel ómögulega. Einlægni felst í því að haga lífi sínu samkvæmt innra-sjálfinu óháð ímynduðu eða raunverulegu áliti annarra. Sá sem sífellt veltir sér upp úr áliti annarra, og hvernig hann kemur öðrum fyrir sjónir, getur ekki verið einlægur.

En sjálfsmeðvitund er í grunninn góður eiginleiki. Meðvitund er að sjálfsögðu forsenda þess að yfirstíga tröppuna frá þarfa-hugsun dýra til rökhugsunar mannsins.

Í nútímasamfélagi er gildi sjálfs-meðvitundar það að hún hvetur okkur til að skoða okkur sjálf í hinu stóra samhengi hlutanna. Í sjálfsskoðun greinum við hvað af okkar eigin eiginleikum eru sprottnir frá innra-sjálfinu og hverjir eru mótaðir af samfélaginu, almenningsáliti og persónumótun markaðarins. Við verðum meðvituð um áður ómeðvitaðan hegóma okkar og getum reynt að losa okkur við hann (ef við viljum)

Í stað þess að vera ómeðvitað barnslega einlæg, getum við orðið meðvitað einlæg. Við getum fundið út hvað það er sem við erum, og viljum, í raun og veru og fylgt þeim uppgötvunum, ekki af blindri þörf heldur meðvituðum vilja.

Þýski hugsuðurinn Theodor Adorno, taldi að í hugsun fælist ávallt andstaða gegn ríkjandi ástandi. Sá sem hugsar, hugsar um möguleikann á því að heimurinn væri öðruvísi en hann er. 

Facebook er eflaust að gera okkur forvitnari, latari, leiðinlegri, hégómafyllri og sljórri, en áður. Við getum aðeins vonað að á sama tíma geri það okkur meðvitaðri um sjálf okkur og heiminn í kring; láti okkur sjá rökleysuna í eigin athöfnum og ástandi heimsins og hvetji okkur til að aðhafast. (2)

(1) Ég held að hægt sé að móta sjálfið, bæði með félagsmótun og eigin atgervi. Við þurfum a.m.k. fyrst að hrista stoðir sjálfsins allsvakalega áður en við getum sagt að það sé byggt á óbreytanlegum grunni.

(2) Myndirnar í færslunni eru allar forsíðumyndir höfundar á Facebook frá upphafi.